HEILSURANNSÓKN – Svefnmælingar

Í svefnrannsókninni er notaður mælibúnaður sem skráir ýmsa líkamsstarfsemi þátttakenda í svefni. Meðal þess sem mælt er má telja hreyfingu, hjartslátt, öndun, súrefnismettun og hljóð. Í sameiningu gefa þessar mælingar vísbendingar um gæði svefns. Það er ljóst að góður svefn er mikilvægur fyrir heilsuna en það er jafnframt margt óþekkt um svefn og líkamsstarfsemi í svefni. Markmið þessarar rannsóknar er að nota niðurstöður mælinganna til þess að skilja betur svefn og svefntruflanir og ekki síst áhrif erfða á þessa þætti.

 

Myndband um uppsetningu svefnmælibúnaðar

Kæfisvefn

Niðurstöður mælinganna kunna að gefa grun um kæfisvefn, en kæfisvefn er ástand sem einkennist af dagsyfju ásamt endurteknum öndunarhléum í svefni samhliða lækkun á súrefnismettun í blóði. Kæfisvefni fylgja oftast háværar hrotur og óvær svefn.
Það er gott að benda á að eftirfarandi þættir geta hjálpað við að draga úr kæfisvefni: að vera í kjörþyngd, stunda reglulega hreyfingu, forðast áfengi, forðast svefnlyf, forðast langar vökur, reykja ekki og sofa á hliðinni.
Í sumum tilfellum er ráðlögð sérhæfð meðhöndlun við kæfisvefni með bitgómi og/eða með svefnöndunartæki. Samkvæmt leiðbeiningum Landspítalans er yfirleitt ráðlagt að íhuga meðferð við kæfisvefni ef það greinast að meðaltali 15 eða fleiri öndunarhlé á klukkustund (oftast samhliða falli í súrefnismettun) en sumir einstaklingar sem eru með 5-15 öndunarhlé á klukkustund og einnig með mikla dagsyfju, geta einnig haft gagn af meðferð. Þetta þarf að meta sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig.

Nánari upplýsingar um kæfisvefn má m.a. finna á heimasíðum Landspítalans (hér) og Hins íslenska svefnrannsóknafélags (hér).