I. Almennt um Heilsurannsóknina

Hver er tilgangur Heilsurannsóknarinnar?
Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða hvernig erfðir hafa áhrif á heilsu. Með því að safna upplýsingum um heilsufar og bera saman við erfðaefnið er hægt að komast nær áhættuþáttum og orsökum sjúkdóma. Slík þekking getur leitt til nýrra leiða til að fyrirbyggja og meðhöndla sjúkdóma.
Hvernig hafa erfðir áhrif á heilsu?
Í erfðamengi mannsins eru upplýsingar skráðar með fjórum byggingareiningum, svokölluðum níturbösum, sem nefnast A, C, G og T. Í stafrófi erfðanna eru því aðeins fjórir stafir. Segja má að upplýsingarnar séu skráðar í eina langa setningu sem telur þrjá milljarða basa. Þessi basaröð er nánast eins í okkur öllum. Þegar basaröð tveggja einstaklinga er borin saman, finnst að jafnaði munur í u.þ.b. 0,1% tilfella (3 milljónir basa), t.d. þar sem annar er með A í röðinni er hinn með G. Þessi breytileiki er grunnurinn að fjölbreytileika fólks. Í samspili við umhverfið ákvarða þessir erfðabreytileikar eiginleika eins og hæð og háralit en einnig sjúkdóma og áhættuþætti þeirra. Í kjölfar framfara í erfðafræðirannsóknum síðustu áratugi hefur þekking á þessu sviði stóraukist. Til dæmis hafa fundist fleiri en 500 erfðabreytileikar sem hafa áhrif á hæð og fleiri en 50 breytileikar sem hafa áhrif á kransæðasjúkdóm. Enn eru þó áhrif margra erfðabreytileika óþekkt. Líklega hafa sumir þessara breytileika væg eða jafnvel engin áhrif en aðrir auka líkur á sjúkdómum eða vernda gegn þeim. Markmið þessarar rannsóknar er að komast að því hvort og hvaða áhrif þessir erfðabreytileikar hafa á eiginleika og starfsemi mannslíkamans.
Hverjir standa að Heilsurannsókninni?
• Heilsurannsóknin er á vegum Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) í samstarfi við Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna (ÞR).
• Læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk ÞR sér um skipulagningu og framkvæmd mælinga og blóðsýnatöku.
• Íslensk erfðagreining annast rannsóknir á erfðaefni og úrvinnslu á niðurstöðum.
• Guðmundur Þorgeirsson, hjartasérfræðingur, er ábyrgðarmaður samskipta við þátttakendur og persónuauðkenndra gagna (sími 520-2800 hjá ÞR).
• Kári Stefánsson, læknir og forstjóri ÍE, er ábyrgðarmaður vísindalegrar framkvæmdar rannsóknarinnar og lífsýnasafns ÍE.
• Heilsurannsóknin hefur hlotið samþykki Vísindasiðanefndar.
Hverju bætir Heilsurannsóknin við það sem þegar er vitað um tengsl erfða og heilsu?
Með nákvæmari greiningu á erfðaefni mannsins finnast í vaxandi mæli erfðabreytileikar með óþekktar afleiðingar, þ.m.t. breytileikar sem gætu valdið sjúkdómum. Heilsurannsóknin mun leita svara við spurningum um áhrif þeirra. Við vonumst til að það muni leiða til betri og markvissari lækninga bæði hvað varðar greiningu sjúkdóma, fyrirbyggjandi aðgerðir og meðferð.
Er Heilsurannsóknin frábrugðin öðrum verkefnum Íslenskrar erfðagreiningar?
Já. Í flestum verkefnum Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) er fólki boðin þátttaka vegna þess að það sjálft eða skyldmenni bera einkenni tiltekins sjúkdóms. Sjúkdómurinn er þá þekktur fyrirfram og leitað er erfðabreytileika sem honum tengjast.

Í Heilsurannsókninni er rannsóknaraðferðinni snúið við. Þar eru mismunandi erfðabreytileikar þekktir og leitað er hugsanlegra áhrifa, einkenna eða sjúkdóma sem þeim tengjast.

Heilsurannsóknin á það sameiginlegt með öðrum verkefnum ÍE að markmiðið er að finna tengsl milli erfða og heilsufars og nýta vitneskjuna til að stuðla að framförum í heilsuvernd og meðferð sjúkdóma.

Ég er þegar þátttakandi í rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Bætir Heilsurannsóknin þar einhverju við?
Já. Í dæmigerðu verkefni Íslenskrar erfðagreiningar er sjónum yfirleitt beint að afmörkuðum sjúkdómi eða einkennum hans. Heilsurannsóknin mun hinsvegar gefa breiða mynd af starfsemi mannslíkamans. Þar eru gerðar margar mælingar sem endurspegla virkni fjölda líffæra og líffærakerfa, t.d. hjarta og blóðrásar, lungna, vöðva og augna.

Þess vegna er þátttaka þeirra sem áður hafa lagt lóð sitt á vogarskálina mjög mikilvæg.

Er einhver ávinningur af því að taka þátt í Heilsurannsókninni?
Mikilvægasti ávinningurinn af þessari rannsókn er aukin þekking á tengslum erfða og heilsufars. Við vonumst til að það muni leiða til betri og markvissari lækninga bæði hvað varðar greiningu sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerðir og meðferð.

Þátttakendur fá afhentar helstu niðurstöður dagsins, m.a. um:

 • Blóðþrýsting
 • Augnþrýsting
 • Öndunarmælingar
 • Gripstyrk
 • Beinþéttni
 • Líkamsbyggingu
 • Áreynslugetu
 • Heyrn

Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu en enginn fjárhagslegur ávinningur felst í þátttöku.

Hver er vísindalegur ávinningur af Heilsurannsókninni?
Þekking á erfðafræðilegum orsökum sjúkdóma er enn af skornum skammti þrátt fyrir miklar framfarir síðustu ár. Ávinningur af rannsókninni er fyrst og fremst aukin þekking á tengslum erfða og heilsufars. Rannsóknin gæti þar að auki varpað ljósi á áhrif erfðabreytileika á margs konar líkamsstarfsemi, t.d. á starfsemi hjarta, lungna og blóðrásar.
Er einhver hagnýtur ávinningur af Heilsurannsókninni?
Með aukinni þekkingu á tengslum erfðabreytileika og sjúkdóma verður hægt að skilgreina sjúkdóma betur og stunda markvissari og betri lækningar, bæði hvað varðar greiningu og meðhöndlun sjúkdóma.
Verður mér greitt fyrir að taka þátt?
Nei. Ávinningur þinn er fyrst og fremst samfélagslegur; þú leggur þitt af mörkum til að auka þekkingu á orsökum alvarlegra sjúkdóma. Þessi þekking nýtist til betri lýðheilsu í framtíðinni með bættum aðferðum til greininga og lækninga. Þú færð einnig mikilvægar upplýsingar um þig sjálfa(n).
Hver greiðir kostnaðinn við Heilsurannsóknina?
Íslensk erfðagreining greiðir allan kostnað við rannsóknina.

II. Um þátttöku

Í hverju felst þátttaka í Heilsurannsókninni?
Þátttakan felst í:
• Að undirrita samþykkisyfirlýsingu sem er skilyrði fyrir þátttöku.
• Að svara spurningalista um eiginleika, heilsufar, lífsstíl og lyfjanotkun.
• Að gefa blóðprufu (60 ml) til einangrunar erfðaefnis, hvítra blóðkorna og blóðvatns til mælinga á ýmsum efnum.
• Að gangast undir rannsóknir á ýmsum líffærakerfum, t.d. mælingu á blóðþrýstingi, líkamsstærð, beinþéttni, fitudreifingu, gripstyrk, heyrn og öndun, svo og hjartalínurit, augnrannsóknir, lausn hugrænna verkefna og áreynslupróf.

• Að fá afhentar valdar niðurstöður úr ofangreindum mælingum, sem við reynum að afhenda samdægurs. Blóðmælingar verða gerðar síðar og niðurstöður verða varðveittar á dulkóðuðu formi og verða ekki afhentar þátttakendum.

Í hverju felst samþykki mitt?
Samþykkið heimilar:

• Að samkeyra megi upplýsingar um þig við gögn hjá Íslenskri erfðagreiningu.
• Að ábyrgðarmenn rannsóknarinnar megi afla upplýsinga úr sjúkraskrám þínum, heilsufarsskrám og opinberum skrám sem gætu reynst gagnlegar rannsókninni.
• Að haft verði samband við þig aftur til að afla viðbótarupplýsinga eða bjóða þér þátttöku í nýrri rannsókn. Það gæti verið á grundvelli arfgerðarniðurstaðna eða annarra mælinga og gæti þýtt að þér yrðu gerðar ljósar ákveðnar niðurstöður úr rannsókninni eins og þær snúa að þér persónulega. Ekki er hægt að segja fyrirfram hvaða þýðingu þær niðurstöður hefðu fyrir þig en þér yrði gerð grein fyrir merkingu þeirra í samræmi við þá þekkingu og skilning sem væri á niðurstöðunum á þeim tíma.
• Að haft sé samband við maka/sambýling og ættingja til að bjóða þeim þátttöku, enda tryggt að þeim séu ekki veittar neinar upplýsingar um þig.
• Að sýni, án persónuauðkenna, verði send úr landi til greiningar eða mælinga sé þess þörf vegna rannsóknarinnar.
• Að blóðsýni, vefjasýni og erfðaefni sem verður safnað frá þér verði varðveitt undir kóða í lífsýnasafni ÍE ásamt upplýsingum sem þú hefur veitt eða hefur verið safnað um þig annars staðar í tengslum við þátttöku þína í rannsókninni og að bæði sýni og upplýsingar megi nota til annarra vísindarannsókna sem hlotið hafa umfjöllun og leyfi Vísindasiðanefndar.

Samþykkið kveður einnig á um að þú afsalir þér öllum kröfum um hlutdeild í fjárhagslegum ávinningi, sem verða kann af rannsókninni.

Af hverju er mér boðin þátttaka?

Einstaklingum sem hafa áður tekið þátt í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og bera eitt, tvö eða ekkert (samanburðarhópur) eintak af erfðabreytileikum sem kunna að hafa áhrif á starfsemi líkamans er boðin þátttaka í rannsókninni. Í sumum tilvikum verður ættingjum þeirra einnig boðin þátttaka.

Til að rannsaka langvinnar afleiðingar COVID-19 sýkingar á heilsufar, bjóðum við nú einnig einstaklingum sem hafa greinst með SARS-CoV-2 veiruna eða mótefni gegn henni ásamt samanburðarhópi.

Starfsfólk rannsóknarinnar hefur engar upplýsingar um hvaða erfðabreytileika þú berð. Upplýsingar um erfðaefnið eru geymdar á dulkóðuðu formi hjá ÍE.

Ég fékk boðsbréf. Er skylda að taka þátt?
Nei. Það er engum skylt að taka þátt í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og þú getur hætt þátttöku hvenær sem er.
Getur fólk sem ekki fær boðsbréf tekið þátt?
Öllum landsmönnum, 18 ára og eldri, er frjálst að skrá sig til þátttöku í Heilsurannsókninni.

 

III. Upplýsingar um mælingarnar

Hvað er mælt í Heilsurannsókninni?

Í Heilsurannsókninni hafa verið gerðar fjölmargar mælingar á starfsemi ýmissa líffæra og líffærakerfa, þ.m.t.:

• Blóðþrýstingur
• Líkamsstærð
• Beinþéttni
• Fitudreifing
• Gripstyrkur
• Heyrnarmæling
• Augnrannsóknir
• Öndunarmæling
• Taugasálfræðipróf
• Hjartalínurit
• Áreynslupróf

Heilsurannsóknin er í stöðugu endurmati sem hefur áhrif á hvaða mælingar eru gerðar hverju sinni. Þetta getur orðið til þess að hætt verður að gera einhverjar af ofangreindum mælingum og / eða aðrar mælingar bætast við. Sömuleiðis geta verið tímabundnar breytingar á mælingum t.d. vegna tækjabilana. Þá verður metið hverju sinni hvort mælingunni verði alfarið sleppt eða hvort þátttakendur verði beðnir að koma aftur síðar í tiltekna mælingu.

Þarf ég að fara i alla þætti Heilsurannsóknarinnar?
Þér er frjálst að sleppa einstaka prófum. Rannsóknir verða ekki gerðar hjá einstaklingum sem eru bráðveikir, með virka alvarlega sjúkdóma eða annað sem að áliti læknis kemur i veg fyrir þátttöku. Ástæður til að gera ekki grunnrannsóknina í heild sinni, áreynslupróf eða aðrar einstakar rannsóknir, verða metnar í hvert sinn í samráði við lækni.
Fylgir því einhver áhætta að taka þátt í rannsókninni?
 • Bein áhætta við þátttöku er hverfandi. Þó er mögulegt að blóðsýnatakan og sumar mælingarnar valdi þér vægum óþægindum. Þér er auðvitað frjálst að sleppa einstaka mælingum eða hætta þátttöku hvenær sem er.
 • Beinþéttni verður mæld með svokallaðri DXA-tækni, sem notar röntgengeisla. Rannsóknin er samþykkt af Geislavörnum ríkisins. Geislaálag vegna þátttöku í rannsókninni er minna en sem svarar geislaálagi vegna náttúrulegrar bakgrunnsgeislunar á Íslandi á einu ári. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Hún kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Þessi geislun er lítil á Íslandi og mun minni en annars staðar á Norðurlöndum. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé mjög lítil.
 • Afar lítil áhætta fylgir meðferð persónuupplýsinga. Lögum nr. 77/2000 um persónuvernd ásamt skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknarinnar verður fylgt í hvívetna. Rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem þú veitir. Engin persónuauðkenni verða sett á sýni eða upplýsingar sem verða sendar Íslenskri erfðagreiningu heldur verða kennitölur ávallt dulkóðaðar.
Þarf ég að taka lyf eða önnur efni í rannsókninni? Verð ég fyrir geislun?
 • Fyrir öndunarmælingu er betra að þátttakandi andi að sér innúðalyfi sem víkkar berkjurnar og auðveldar flæði lofts um lungun. Sumir geta orðið varir við handskjálfta í kjölfarið, höfuðverk eða nokkuð örari hjartslátt en venjulega, en þessi einkenni eru yfirleitt væg og ganga fljótt yfir.
 • Við beinþéttnimælinguna er notaður röntgengeisli en geislunin er sambærileg við 2–3 daga af þeirri geislun sem er úti í íslenskri náttúru og er því um óverulega og skaðlausa geislun að ræða.
Hverjir gera rannsóknirnar? Er læknir viðstaddur?
Allar skoðanir og rannsóknir verða gerðar af þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki í umsjón læknis sem er ávallt til staðar. Allar rannsóknir verða framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum stöðlum þar sem þeir liggja fyrir.

IV. Upplýsingar fyrir mætingu í Heilsurannsóknina

Hvar fer rannsóknin fram?
 • Rannsóknin fer fram hjá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna (ÞR), í Turninum, Smáratorgi 3, 201 Kópavogi, fjórðu hæð. Símanúmerið þar er 520-2800.
 • Heimsóknin tekur að jafnaði 3 1/2 – 4 klukkustundir.
 • Í upphafi komu verður rannsóknin kynnt betur fyrir þér og spurningum þínum svarað.
Þarf ég að undirbúa mig fyrir komuna?
Við munum biðja þig um að fylla út spurningalista á netinu áður en þú kemur til okkar. Spurningalistinn snýr að heilsu þinni og lífsstíl og tekur 20-30 mínútur að svara. Þú verður einnig beðin/n um að skrá öll lyf sem þú tekur að staðaldri, bæði lyfseðilsskyld og ólyfseðilsskyld lyf ásamt vítamínum og öðrum bætiefnum. Best er að hafa lyfin við höndina þegar þú fyllir út spurningalistann.

Í heimsókninni munum við spyrja þig spurninga um heilsufar, meðal annars um helstu sjúkdóma sem þú hefur greinst með og helstu aðgerðir sem þú hefur farið í. Við værum þakklát ef þú gæfir þessu gaum áður en þú kemur í rannsóknina.

Hér eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga:

 • Ef þú hefur nýlega farið í aðgerð á augum, brjóstholi eða kvið biðjum við þig um að fresta heimsókninni um þrjá mánuði frá aðgerðardegi.
 • Ef þú ert með eða hefur nýlega fengið kvef, aðrar sýkingar eða önnur bráð veikindi biðjum við þig um að fresta komu til okkar þar til þú hefur jafnað þig að fullu.
 • Barnshafandi konum er ráðlagt að bíða með þátttöku þar til eftir fæðingu.

Starfsfólk Þjónustumiðstöðvarinnar finnur með ánægju fyrir þig tíma þegar hentar.

Við bendum á að heimsóknin er tímafrek og getur reynt á þolinmæði og þrek þátttakenda. Við leggjum okkur fram við að gera heimsóknina eins þægilega og kostur er.

Þarf ég að taka eitthvað með mér í rannsóknina?
Fyrir sumar mælingar þarf að afklæðast að hluta. Til að auðvelda þetta ferli fá allir þátttakendur þægilegan fatnað við komu til að klæðast i rannsókninni.

Fyrir beinþéttnimælinguna þarf að fjarlægja allan málm og því er gott að forðast að mæta með skartgripi.

Ef þú notar lesgleraugu er mikilvægt að þú takir þau með því þú verður beðin/n um að lesa texta af tölvuskjá. Ef þú notar linsur að staðaldri biðjum við þig um að mæta frekar með gleraugu í heimsóknina ef þú átt þau til. Ekki er hægt að framkvæma augnmælingar rannsóknarinnar á einstaklingum með linsur í augum.

Ef þú notar heyrnartæki er æskilegt að hafa þau meðferðis.

Við biðjum þig að taka með þér öll lyf, fæðubótarefni og vítamín sem þú tekur að staðaldri.

Við bjóðum upp á læsta skápa á staðnum til að geyma fatnað, veski og önnur verðmæti.

Hvenær er rétt að fresta þátttöku í rannsókninni?
Við vissar kringumstæður er ráðlegt að fresta þátttöku.

 • Ef þú hefur nýlega farið í aðgerð á augum, brjóstholi eða kviðarholi, eða í aðra stóra aðgerð, biðjum við þig að fresta heimsókninni um þrjá mánuði frá aðgerðardegi.
 • Ef þú ert með eða hefur nýlega fengið kvef, aðrar sýkingar eða önnur bráð veikindi biðjum við þig um að fresta komu til okkar þar til þú hefur jafnað þig að fullu.
 • Barnshafandi konum er ráðlagt að bíða með þátttöku þar til eftir fæðingu.

Ef þú ert í vafa eða spurningar vakna, svara starfsmenn Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna öllum spurningum í síma 520-2800.

Starfsfólk Þjónustumiðstöðvarinnar finnur með ánægju tíma sem hentar þér.

Ég nota hjólastól; get ég tekið þátt í rannsókninni?
Já, aðstaðan í Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna er hönnuð með það í huga að þátttakendur sem nota hjálpartæki eigi þar greiðan aðgang. Endilega láttu okkur vita þegar þú bókar tíma svo við getum lagt okkur fram við að gera heimsóknina þína betri og þægilegri.
Ég er barnshafandi, get ég samt tekið þátt?
Í vísindarannsóknum er öryggi þátttakanda alltaf í fyrsta sæti. Sum prófin sem eru gerð í rannsókninni, meðal annars öndunarmæling, áreynslupróf og beinþéttnimæling, eru ekki án áhættu fyrir þungaðar konur. Af þessum ástæðum biðjum við þungaðar konur að bíða með heimsókn fram yfir fæðingu barnsins.
Þarf ég að koma oftar en einu sinni?
Við reynum að gera allar rannsóknirnar í einni heimsókn. Í undantekningartilvikum gætum við þurft að biðja þig um að koma oftar til að klára Heilsurannsóknina, t.d. ef að bilun í tækjabúnaði kom í veg fyrir einhverja rannsókn í fyrra skiptið.
Hvað tekur rannsóknin langan tíma?

Heimsóknin til Þjónustumiðstöðvarinnar tekur að jafnaði 2-4 klukkustundir.

Þarf ég að borga fyrir prófin og rannsóknirnar sem ég gengst undir?
Nei, rannsóknin er þér að kostnaðarlausu.
Til upprifjunar áður en þú kemur til okkar
 • Koma í þægilegum skóm
 • Koma með gleraugu frekar en linsur ef mögulegt
 • Koma með lesgleraugun
 • Koma með heyrnartækin
 • Koma með öll lyf, fæðubótarefni og vítamín sem þú tekur
 • Ekki vera með skartgripi
 • Þú þarft ekki að vera fastandi
 • Þú skalt taka lyfin þín eins og venjulega á komudegi

V. Niðurstöður

Hvar og hvernig birtast niðurstöður úr rannsókninni?
Eins og venja er í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar, þá verða niðurstöður úr Heilsurannsókninni birtar í alþjóðlegum vísindatímaritum þegar þær eru tilbúnar til birtingar. Þar að auki er ætlunin að sýna dreifingar á mæliniðurstöðum á heimasíðu Heilsurannsóknarinnar þegar þær liggja fyrir í nægilegum fjölda.
Fæ ég upplýsingar um mínar niðurstöður úr mælingunum?
Að rannsókn lokinni færð þú afhentar upplýsingar um niðurstöður valinna mælinga. Niðurstöður úr rannsóknum sem teljast til hefðbundinna læknisrannsóka verða afhentar með túlkun sem byggð er á viðurkenndum leiðbeiningum fyrir hvert próf. Upplýsingar um arfgerð verða ekki afhentar.
Hvaða niðurstöður fæ ég afhentar?
Að því gefnu að mælingarnar hafi verið gerðar, færð þú afhentar niðurstöður um:

 • Hæð og þyngd
 • Þyngdarstuðul
 • Blóðþrýsting
 • Augnþrýsting
 • Taugaleiðni
 • Öndunarmælingar
 • Hlutfall blóðþrýstings í ökkla og upphandlegg
 • Gripstyrk
 • Beinþéttni
 • Líkamsbyggingu
 • Áreynslupróf
 • Heyrn

 

Af hverju fæ ég ekki allar niðurstöður?
Sum prófin gefa ekki niðurstöðu í rauntíma eða eru flóknari að lesa úr en svo að hægt sé að afhenda niðurstöðu í heimsókninni. Megnið af eftirvinnslu á gögnunum fer fram eftir dulkóðun þeirra og eftir það eru gögnin ekki afkóðuð (gerð aftur persónugreinanleg) nema í undantekningatilvikum.
Hvað er gert ef eitthvað kemur í ljós sem þarfnast athugunar við?
Ef niðurstöður kalla á frekari uppvinnslu eða læknismeðferð, fer hjúkrunarfræðingur eða læknir yfir þær með þér og beinir þér í viðeigandi farveg í heilbrigðiskerfinu.

VI. Meðferð upplýsinga

Hverjir hafa aðgang að rannsóknagögnunum?
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar fá aðgang að gögnunum, en einungis eftir dulkóðun kennitalna með kerfi sem Persónuvernd hefur samþykkt og hefur eftirlit með.
Hvernig er þess gætt að upplýsingar úr rannsókninni berist ekki í rangar hendur?
Rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem þú veitir og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknarinnar verður fylgt í hvívetna. Engin persónuauðkenni verða sett á sýni eða upplýsingar sem verða sendar ÍE heldur verða kennitölur ávallt dulkóðaðar. Öryggis gagnanna er gætt með aðgangsstýringu sem heimilar einungis þeim aðgang sem vinna að verkefninu. Gagnaöryggisstjóri hefur eftirlit með að öryggisreglum sé framfylgt og reglubundnar öryggisúttektir eru gerðar.

Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna | Turninn, Smáratorgi 3, 201 Kópavogi, 4. hæð. | Sími 520 2800. Opið alla virka daga frá kl. 8-16.