FRAMKVÆMD

Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna (ÞR) hefur samband við einstaklinga sem boðin er þátttaka, kannar áhuga þeirra á að vera með í rannsókninni og finnur hentugan tíma fyrir heimsókn í ÞR.

Á sama hátt verður haft samband við þá sem hafa skráð sig til þátttöku án undanfarandi boðsbréfs.

Áður en þátttakendur mæta í Þjónustumiðstöðina eru þeir beðnir um að svara spurningalista á netinu um heilsufar og venjur.

Í upphafi heimsóknarinnar eru þátttakendur beðnir um að skrifa undir upplýst samþykki. Næst fara þeir í viðtal þar sem þeir eru spurðir um lífsstíl og heilsufar og í kjölfarið er tekið blóðsýni.

Að því loknu fara þátttakendur í gegnum ýmiskonar próf og mælingar þar sem kannað er ástand helstu líffærakerfa. Allar rannsóknirnar eru framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum stöðlum af þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki og í umsjón lækna.

Tímalengd heimsóknar er breytileg eftir áherslum, heimsóknin tekur að jafnaði 2-4 klukkustundir. Ekki eru allar mælingar gerðar í öllum útgáfum heilsurannsóknarinnar, mælingarnar eru breytilegar eftir aðstæðum og áherslum á hverjum tíma.

Hér fyrir neðan er lýsing á ýmsum mælingum sem eru eða hafa verið gerðar í rannsókninni.

Helstu þættir Heilsurannsóknarinnar

LÍFSMÖRK

Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Lífsmörk
LÍFSMÖRK

Lífsmörk eru ýmsar mælingar á lífeðlisfræðilegri starfsemi líkamans. Þau lífsmörk sem eru mæld í Heilsurannsókninni eru hjartsláttartíðni, blóðþrýstingur, súrefnismettun og líkamshiti.

Hjartsláttartíðni og súrefnismettun eru mæld með klemmu sem er sett á vísifingur. Líkamshiti er mældur með hefðbundnum eyrnamæli. Blóðþrýstingur er mældur á upphandlegg með stafrænum blóðþrýstingsmæli.

HUGUR, TAUGAR OG SKYNJUN

HUGSUN
Nokkur stutt verkefni sem reyna á hugræna færni verða lögð fyrir þátttakendur. Verkefnin meta meðal annars vinnsluminni, athygli, einbeitingu, mál og rökhugsun. Ef þátttakandinn notar gleraugu er mikilvægt að hafa þau með svo hann geti lesið og sjái vel þau verkefni sem lögð eru fyrir.
TAUGAR
Taugaleiðnipróf mælir bæði hraða og styrk taugaboða. Í Heilsurannsókninni verður taugaleiðni mæld í taug sem liggur utanvert á ökkla. Tvö rafskaut verða lögð á húðina ofan á taugina með um tveggja sentimetra bili. Annað rafskautið örvar taugina með mjög vægu rafboði og hitt rafskautið nemur leiðnina. Taugaleiðniprófið tekur skamman tíma og er skaðlaust. Rafstuðið veldur þó ertingu sem sumum kann að finnast óþægileg, svipað og að reka sig í “vitlausa beinið”.
SJÓN
Í Heilsurannsókninni verða gerðar ýmsar augnrannsóknir, meðal annars mælingar á sjónskerpu, augnþrýstingi og sjónlagi. Myndir verða teknar af sjóntaugum og sjónhimnu og innþekjufrumum hornhimnu. Það er mikilvægt að þeir sem nota gleraugu taki þau með sér í rannsóknina. Þeir sem nota linsur verða beðnir um að fjarlægja þær fyrir þessa skoðun.
Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Sjónmæling
Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Heyrnarmæling
HEYRN
Í heyrnarmælingunni situr þátttakandinn í hljóðeinangruðum klefa með heyrnartól á höfðinu. Starfsmaður situr við heyrnarmæli utan við klefann og sendir hljóð í heyrnartólin af mismunandi tíðni og styrk. Þátttakandinn gefur til kynna hvort hann heyrir hljóð með því að styðja á hnapp.

BRAGÐ- OG LYKTARSKYN

Til að meta bragð- og lyktarskyn mun þátttakandinn bragða- og þefa af þess til gerðum bragð- og lyktarefnum og svara í kjölfarið spurningum um viðkomandi bragð og lykt. 

RÖDD OG LESTUR
Þátttakandinn verður beðinn um að gefa hljóðdæmi af völdum sérhljóðum og orðum ásamt því að lesa stuttan texta sem notaður er í rannsóknum á lesblindu. Hljóðdæmin verða tekin upp og upptökurnar notaðar til að meta breytileika milli einstaklinga í rödd, tali og lestrarhraða.

HJARTA, ÖNDUN OG ÁREYNSLA

Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Hjartalínurit
HJARTA

Hjartalínurit er rannsókn þar sem rafboð í hjartanu eru mæld með rafskautum og sýnd sem línur á riti. Rafboðin veita mikilvægar upplýsingar um starfsemi hjartans.

Rannsóknin fer þannig fram að þátttakandinn fer úr að ofan og leggst á bekk. Tíu rafskaut eru límd á líkamann, sex á brjóstkassann og fjögur á útlimi (þar sem hægri fótleggur er “jörð”). Skautin nema rafboð og eru tengd með leiðslum við hjartalínuritstækið. Tækið er í raun einfaldur spennumælir sem mælir spennu milli tveggja póla og skrifar hana á línuritið.

ÖNDUN

Blásturspróf er rannsókn sem gefur upplýsingar um öndun og ástand lungna. Með þessari mælingu er meðal annars hægt að meta hvort teppa eða herpa sé til staðar við öndun.

Þátttakandinn andar fyrst að sér litlum skammti af innúðalyfi sem auðveldar flæði lofts um lungun. Eftir að lyfið hefur fengið að virka í nokkrar mínútur blæs þátttakandinn af öllum krafti í lítið munnstykki. Áfast mælitæki mælir heildarrúmmál útblásturs og hámarksfráblástur á einni sekúndu.

Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Áreynslupróf
ÁREYNSLUPRÓF

Þessi þáttur rannsóknarinnar mælir viðbrögð líkamans við áreynslu. Niðurstöður áreynsluprófs gefa góðar upplýsingar um áreynslugetu.

Þátttakandinn hjólar á þrekhjóli í 8-10 mínútur og er tengdur við ýmis mælitæki sem mæla meðal annars blóðþrýsting, hjartslátt og súrefnismettun. Gríma er sett yfir nef og munn til að mæla hlutfall lofttegunda í útöndunarlofti. Með þessum upplýsingum er hámarksupptaka súrefnis við áreynslu reiknuð. Það gildi er almennt talið besti mælikvarðinn á líkamlegt þol. Gríman er einungis mælitæki og þátttakandinn andar að sér venjulegu andrúmslofti.

Í upphafi prófs verður létt að hjóla en mótstaðan eykst jafnt og þétt og í lokin verður áreynslan töluverð. Það er mikilvægt að reyna vel á sig til að fá sem bestar upplýsingar úr prófinu.

Langflestir geta tekið prófið og fengið gagnlegar upplýsingar um þrek sitt og þol. Prófið hentar þó ekki þátttakendum með vissa hjartasjúkdóma eða aðra alvarlega og/eða virka sjúkdóma.

Heilsurannsokn.is Íslensk erfðagreining deCODE - Gripstyrkur
GRIPSTYRKUR
Gripstyrkur handa er mældur með sérstökum gripmæli. Prófið fer þannig fram að þátttakandinn kreistir tækið eins fast og honum er unnt í nokkrar sekúndur. Styrkur hvorrar handar er mældur þrisvar. Prófið gefur einnig góða mynd af styrk annarra vöðva líkamans.

Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna | Turninn, Smáratorgi 3, 201 Kópavogi, 4. hæð. | Sími 520 2800. Opið alla virka daga frá kl. 8-16.